Jóladraumur
Jóladraumur, einnig kallað Jólasaga eða Jólaævintýri (enska: A Christmas Carol) er stutt skáldsaga eftir enska rithöfundinn Charles Dickens sem kom fyrst út árið 1843. Sagan er talin með vinsælustu verkum Dickens og er talin sígild saga um jólahátíðina. Ótal kvikmyndir, leikrit og aðrar uppsetningar og endurtúlkanir hafa verið gerðar eftir bókinni í gegnum árin. SöguþráðurSagan gerist í London og fjallar um gamlan nirfil að nafni Ebenezer Scrooge. Scrooge er ríkur og gráðugur viðskiptamaður sem ber enga hlýju til annars fólks, býr einn, heldur ekki upp á jólin, neitar að hjálpa fátæklingum sem til hans leita og þrælar út skrifara sínum, Bob Cratchit, fyrir lúsarlaun. Jólanótt eina er Scrooge vitjað af draugi fyrrum viðskiptafélaga síns, Jacob Marley, sem segir honum að hann hafi verið dæmdur til eilífrar útskúfunar og kvala eftir dauða sinn þar sem hann hafi stundað sömu iðju og Scrooge. Marley tilkynnir Scrooge að hann eigi von á heimsókn þriggja anda jólanna sem muni hjálpa honum að bæta ráð sitt og forðast þannig glötun.[1] Meginhluti sögunnar fjallar um heimsóknir jólaandanna til Scrooge, en þeir sýna honum hver um sig jól fortíðar, nútíðar og framtíðar. Fyrsti andinn sýnir Scrooge liðna ævi hans sjálfs og hvernig hann þróaðist úr viðkvæmu en góðhjörtuðu barni í kaldlyndan og eigingjarnan mann. Annar sýnir Scrooge jólin sem eru þá að líða og gleðina og hlýjuna sem grípur flesta samborgara hans yfir hátíðina. Sá síðasti sýnir Scrooge framtíð hans sjálfs og hvernig hann mun deyja einsamall og hataður ef hann breytist ekki.[2] Með sýnum sínum af fortíð, nútíð og framtíð ákveður Scrooge að bæta ráð sitt og verður þrátt fyrir allt góður maður.[1] Íslenskar þýðingarJóladraumur kom fyrst út óstytt í íslenskri þýðingu Karls Ísfeld árið 1942 og bar þá undirtitilinn Saga um reimleika á jólum. Sagan birtist ásamt tveimur öðrum jólasögum Dickens í bók undir titlinum Jólaævintýri. Árið 1986 kom út önnur íslensk þýðing eftir Þorstein frá Hamri með undirtitilinn Reimleikasaga frá jólum.[3] Tilvísanir
|