Kenning um réttlætiKenning um réttlæti (e. A Theory of Justice) er rit um stjórnmálaheimspeki og siðfræði eftir bandaríska heimspekinginn John Rawls. Það kom fyrst út árið 1971 en endurskoðuð útgáfa kom út árið 1999. Þegar ritið kom fyrst út olli það fjaðrafoki í heimspeki og blés nýju lífi í stjórnspekina. Í Kenningu um réttlæti reynir Rawls að lesa vandann um réttláta dreifingu takmarkaðra gæða með kenningu sem byggði á vel þekktri hugmynd um samfélagssáttmálann. Kenning Rawls er þekkt sem kenningin um „réttlæti sem sanngirni“ og telur Rawls réttlætið vera fólgið í ýtrustu mannréttindum annars vegar og jöfnuði hins vegar. KenninginFrumforsenda framsetningu kenningarinnar bendir á að stjórnvöld geti verið réttmæt (e. legitimate) án þess að vera réttlát (e. just). Réttmæti stjórnvaldsins er nauðsynleg siðferðileg forsenda þess, en til þess að fullnægja siðferðilegum kröfum þurfi það einnig að uppfylla skilyrði fyrir réttlæti. Samkvæmt kenningunni felst réttlætið í grunnstofnunum samfélagsins og uppsetningu þeirra. Mismunandi uppsetningar grunnstofnana kallar Rawls grunngerðir (e. basic structures) og er réttlætið innifalið í grunngerðunum því að þar fer úthlutun samfélagslegra gæða fram: hverjir skulu fá viðurkenningar, skyldur, réttindi, tækifæri og ýmiss konar veraldleg gæði. Þar sem það er ekki raunhæfur kostur fyrir fólk að yfirgefa samfélagið sitt eða forðast samfélagslegar skyldur verður krafan um réttláta grunngerð enn mikilvægari. Rawls kemst að niðurstöðum sínum um réttlæti að mörgu leyti án þess að höfða til fyrri kenninga eða aðferða. Til þess beitir hann sérstakri aðferð sem ætlað er að leiða reglur réttlætisins fram. Aðferðin er hugsunartilraun sem hefur verið kölluð upphafsstaðan. Hann hugsar sér einstaklinga sem funda um hvernig grunngerð samfélagsins eigi að vera. Þessir einstaklingar hafa um sig fávísisfeld (e. veil of ignorance) sem gerir það að verkum að þeim er ókleift að vita hvaða stöðu þeir muni gegna eða hópi tilheyra í samfélaginu. Þrátt fyrir svokallaðan fávísisfeld eru fundarmenn vel að sér um hin ýmsu mál sem lúta að samfélaginu og búa yfir skilningi á stjórnarfari og efnahagsmálum. Þessi aðferð tryggir að fundarmenn komist að réttlátari grunngerð þar sem enginn getur beitt sér fyrir eigin hagsmunum. Tvær meginreglur um réttlætiRawls notar upphafsstöðuna til þess að draga fram meginreglur um réttlæti sem nefndar hafa verið frelsisreglan og fjalldalareglan.
Frelsisreglan tryggir með öðrum orðum grunnréttindi fólks, og að grunnréttindi allra séu þau hin sömu. Grunnréttindi eða frelsi manna má því ekki fórna fyrir önnur félagsleg eða efnahagsleg gæði. Dæmi um þetta er að hafi samfélag herskyldu frá 18-20 ára aldri, má ekki víkja frá herskyldunni t.d. í tilfelli háskólanema með tilvísun í að aukin menntun auki fjárhagslegan stöðugleika. Herskyldan gengur gegn grunnfrelsi fólks og þarf hún því að ganga jafnt yfir alla. Frelsisreglan gengur þannig fram fyrir efnahagsleg sjónarmið og fyrir fjalldalaregluna.
Fyrri hluti reglunnar á að tryggja að allir hópar hafi aðgang og jafnan aðgang að sérhverri stöðu í samfélaginu, þ.e. að uppruni eða fjárhagslegur bakgrunnur hafi ekki áhrif á líkurnar á því hvort fólk geti t.d. farið í nám eða haft afskipti af stjórnmálum eða efnahagsmálum. Seinni hluti reglunnar fer fram á að hvers kyns ójöfnuður skal alltaf vera þeim verst settu sem mest í hag. Þannig megum við ekki verja meira fé og fyrirhöfn í því að bæta stöðu þeirra sem hafa það best, nema það sé leið að því marki að gera kjör þeirra lakast settu sem best. Með öðrum orðum, að hvar sem kosta er völ skuli velja það sem gerir það versta sem von er á sem skást. Ekkert annað skiptir máli. Þorsteinn Gylfason gaf reglunni nafnið fjalldalareglan og orðaði hana á þann hátt að fjöll mega ekki vera hærri og tignari en til þess þarf að dalirnir séu sem blómlegastir og byggilegastir. |